01/01/2006

Nú árið er loksins liðið!
Það kom loks það því að árinu lauk og það með miklum sprengjum og engum áramótaheitum. Hjúkkan hefur ekki haft það fyrir sið að strengja áramótaheit enda er maður nógu oft vonsvikinn vegna eigin ákvarðanna, að það er algjör óþarfi að bæta einhverjum heitum við til að geta svekkt sig enn meira þegar maður stendur ekki við þau.
Hjúkkan var búin að setja saman litla samantekt frá síðasta ári en af einhverjum orsökum vildi tölvan ekki posta þessa samantekt (ætli tölvunni hafi ekki fundist þetta of þunglynt!!). En til að gera þessa blessuðu samantekt enn styttri var síðasta ár eitt það erfiðasta sem hjúkkan hefur upplifað. Hún stóð frammi fyrir og tók einhverja þá erfiðustu ákvörðun sem hún hefur þurft að taka, flutti oftar en Osama B.L. og vann eins og vitleysingur. Góðir hlutir gerðust þó líka og má þar á meðal telja íbúðina góðu, Fabíó, Malawi og góða vini og vandamenn sem sýndu hjúkkunni ómetanlegan stuðning.
Árið sem er rétt að byrja virðist ætla að einkennast af barnabylgjunni ógurlegu meðal vinkvenna hjúkkunnar, meiri vinnu og vonandi einhverra ævintýra.
Hjúkkan vill þakka öllum vinum og vandamönnum sínum fyrir síðastliði ár og knús og kossa fá allir þeir sem reyndu eftir bestu getu að gera líf hjúkkunnar betra.

Engin ummæli: