23/12/2005

Ótrúleg vika og Þorláksmessa!
Vika sem leið er búin að vera hreint og beint alveg ótrúleg hjá hjúkkunni. Hún er búin að vera að hendast milli staða og redda því sem reddað verður fyrir þessi blessuðu jól sem eru víst handan við hornið - ásamt því að vilja bara fresta þessum jólum um eins og eitt ár. Hjúkkan er búin að koma sjálfri sér á óvart með sérstakri iðnarafærni og er víst ósköp lítið sem hjúkkan getur ekki gert sjálf! Hún er búin að hengja upp og tengja rafmagnsljós, skúra, henda fortíðinni niður í geymslu, hengja upp myndir á veggi og fleira og fleira. Hjúkkan skellti sér einnig með saumaklúbbnum á jólahlaðborð sem var ekkert nema snilld. Að vísu ætti að fara að skíra saumaklúbbinn "óléttaklúbbinn" þar sem enn fleiri bætast í hóp þeirra sem eiga von á sér. Þetta virðist vera bráðsmitandi innan þessa hóps og grunar hjúkkuna nú að enn fleiri úr hópnum eigi eftir að koma út úr skápnum á komandi mánuðum.
Þorláksmessan fór í kvöldvakt á slysadeildinni og verður morgunvaktin tekin með stæl í fyrramálið. Jólabaðið verður tekið í vinnunni og svo er það beint í aftansönginn í Langholtskirkju og þaðan í jólamatinn til Maríu systur, Sigga mágs og auðvitað litla gullmolans ásamt foreldrunum. Ætli það sé þá ekki bara best að koma sér í bólið enda langur dagur framundan!

Engin ummæli: