27/09/2006

Kostulegir ferðamenn!
Þegar maður er mikið á ferðinni milli landa kemur maður sér upp ákveðnu hegðunarmynstri á flugvöllum og í flugvélum. Hjúkkan hefur haldið sig við það að hlutverk flugvalla og flugvéla sé ekki til þess gert að eignast vini og þar af leiðandi er engin ástæða til þess að tala við fólk sem maður ekki þekkir á þessum stöðum. Ekki myndi maður ganga upp að næsta manni í Hagkaup og spyrja hann hvað hann ætlaði að hafa í kvöldmatinn, einfaldlega vegna þess að hann væri í sömu verslun og þú. Svo er það týpan sem les yfir öxlina á þeim sem situr við hlið hans í flugvélum sem einnig flokkast undir einkennilega hegðun að mati hjúkkunnar. Það kemur þér einfaldlega ekki við hvaða einstaklingurinn í næsta sæti er að lesa á meðan það er ekki do-it-yourself bók um sprengjugerð um borð í flugvélum.
Á ferð sinni til Köben varð á vegi hjúkkunnar einmitt þessi ferðalangur sem hjúkkan kann lítið að meta. Fyrir það fyrsta vissu allir í fríhöfninni að þessum einstaklingi fannst Queen vera besta hljómsveit allra tíma. Viðkomandi hafði komist yfir tónleikadisk frá Wembley með bandinu og var að velta því fyrir sér hvort hún ætti að kaupa hann eða ekki. Hún spurði fjölmarga er áttu leið um svæðið hvort þetta væri ekki örugglega tekið upp áður en Freddie dó, því það væri bara ekki saman bandið eftir það!!!!!!! Þegar hjúkkan steig svo upp í vélina sá hún sér til lítillar hamingju að þessi einstaklingur sat við hlið hennar alla leiðina til Köben. Jú einstaklingurinn var greinilega nokkuð ómótt í fluginu og vildi mikið spjalla og reyndi m.a. annars að ræða þau skjöl sem hjúkkan var að lesa á leiðinni út. Mjög kurteisislega og á einstaklega penan hátt "sofnaði" hjúkkan fljótlega og gat þar af leiðandi komist hjá frekari samskiptum við þennan einstakling.
En þið megið alls ekki halda að hjúkkan hafi verið dónalega eða hranalega í viðmóti, bara hafði engan áhuga á því að tala við þennan einstakling sem er örugglega besta skinn og vildi vera í friði á fluginu.

Engin ummæli: