12/01/2008

Íslendingar - bestir í heimi?
Nú þegar hjúkkan er búin að fara til Danmerkur með vonda veðrið og koma því í góðan sess þar var kominn tími til þess að koma sér aftur heim. Ferðin byrjaði og endaði á vinaheimsóknum en sökum kvartana sem höfðu borist frá Danmörku um heimsóknarleysi hjúkkunnar varð hún að gera eitthvað í málinu. Áður en vinna hófst var tekið gott stelpukvöld í Århus með Lindu og Svönu og smá McDreamy. Það er nú eitthvað farið að halla undan fæti hjá honum og eiginlega komnir aðrir draumalæknar í líf stúlknanna en ekki meira um það hér. Vinnan hófst á mánudag og sem fyrr var setið allan daginn og velt fyrir sér gangi mála í bransanum. Kvöldin einkenndust af kvöldvökum á danska vísu og það var eiginlega svona kjánalega gaman.....
Á leiðinni heim var ein nótt tekin í Köben hjá Þóri og Jacob og Héðinni átti leið um í smá súpu og knús. Bara yndislegt að hitta strákana sína í Köben og lofaði hjúkkan að koma aftur fljótlega.
Þegar hjúkkan var nú komin út í vél (NB kl. 13:20) sá hún sér til lítillar hamingju að ferðafélagar hennar í fluginu (þ.e. þeir sem voru í sömu sætaröð) voru tveir súr-illa-lyktandi fullir miðaldra íslenskir karlmenn. Þeir byrjuðu á því að spyrja með nettu frussi ,, ertu íslensk"? Jú hjúkkan gat ekki annað en viðurkennt það þar sem hún var að lesa Morgunblaðið. Þessir ferðafélagar gáfu sér svo leyfi til þess að reyna að spyrja hjúkkuna um fjölskylduhagi hennar. Hjúkkunni til lífs sá hún að það voru laus sæti við neyðarútgang svo hún spratt á fætur og fangaði eina flugfreyjuna, lýsti ástandinu og var ótrúlega glöð þegar hún flutti sig í annað sæti í vélinni. Alla vega þrisvar sinnum í fluginu sá hjúkkan svo fyrrum sætaraðarfélagana hlaupa á klósettið til þess að sækja þurrkur þar sem eitthvað hafði helst niður hjá þessum mönnum. Sannarlega þjóðinni til sóma!!!

Engin ummæli: