31/01/2007

Afsakið skakkt númer!!
Eitthvað gekk hjúkkunni illa með símann sinn í kvöld og kom það meðal annars fram í síendurteknum röngum númerum sem hún hringdi í. Þetta byrjaði allt í lokin á Americas Next Top Model þar sem sást í ákveðna byggingu í Barcelona er minni helst á ofvaxið kynlífshjálpartæki (grínlaust.... hótelið sem hjúkkan gisti á í Barcelona er einmitt við hliðina á þessu skrímsli). Þar sem hjúkkan átti marga góða brandara með samstarfskonu sinni í tengslum við þessa byggingu ákvað hún að slá á þráðinn til hennar í lok þáttarins til að tjá sig um málið. Hjúkkan hefur margoft hringt í samstarfkonuna og veit uppá hár símanúmerið hjá henni. Ekki tókst betur til en svo að hún hringdi óvart í eina af hæstráðendum í Vistor, sem hafði nú húmor fyrir þessu öllu. Hjúkkan roðnaði nett í símann og náði svo í hláturskasti að slá inn rétt símanúmer. Eftir það samtal ætlaði hjúkkan að hringja í Þormóð og vildi ekki betur til en svo að hún einmitt - jú hringdi aftur í vitlaust númer. Í þetta sinn var það nú sem betur fer enginn innan fyrirtækisins sem svaraði, en það kom nú samt á óvart hver var hinum megin á línunni. Jú þetta ætlaði ekki að ganga upp hjá hjúkkunni og þegar hún hafði í þriðja sinn á innan við 45 mín hringt í rangt númer ákvað hún að hætta þessu kjaftæði og sætta sig við að hlusta á rausið í sjálfri sér... Sem betur fer eru bara tveir dagar eftir af þessari vinnuviku og stefnan tekin út úr bænum um helgina, ætli hjúkkan villist ekki á leiðinni? Kannski hún láti bara aðra um aksturinn..

Engin ummæli: