01/06/2007

Flensuð!
Hjúkkan er eitthvað flensuð í dag og er við það að gefast upp á fótum sínum sökum beinverkja. Þetta er dagur 2 í þessum leiðindum og stemningin í Dofranum því ekki mjög mikil. Kvöldið fór í sófann enda lítið annað hægt að gera þegar maður er í svona ástandi. Nema hvað að hjúkkan var eiginlega búin að gleyma því hversu slæm sjónvarpskvöld föstudagskvöld eru. Maður á greinilega ekki að hafa gaman af því að njóta stundarinnar heima við sjónvarpið á föstudögum. Eftir góðan blund um eftirmiðdaginn þar sem hjúkkan var nú öll að koma til að eigin mati hófst áhorfið. Tveir þættir ef unglingaseríunni One Tree Hill sem einu sinni voru eðilegir þættir - en núna eru allir að lenda í fáránlegum lífsháska og mjög absúrd aðstæðum. Eftir tvo klukkutíma af unglingavandamálum hófst hinn ótrúlega kjánalegi Bachelor þáttur. Í þetta sinn er einhver gaur sem er með voðalega flott eftirnafn og á ógeðslega mikið af peningum að reyna að hössla kellingar. Í ofanálag er gaurinn víst með nafnbótina prins. Jú gellurnar voru alveg að missa sig yfir því að draumaprinsinn væri alvöru prins!!! Þetta fór fljótlega versnandi og kjánahrollurinn jókst samafara því. Þegar ein gellan hóf svo að syngja óperu af svölunum til að ná athygli gaursins varð kjánahrollurinn að aumingjahroll og hjúkkan óskaði þess heitast að þessi þáttur færi að taka enda. Maður getur svo sem sjálfum sér um kennt þegar maður situr sjálfviljugur fyrir framan tækið og gæti alveg slökkt á því eða teigt sig í fjarstýringuna.
Nú eru fæturinir alveg búnir að fá nóg og hjúkkan sér þann kost bestan að koma sér bara í háttinn.

Engin ummæli: