29/10/2007

Yndislegir dagar í Köben!
Hjúkkan er aldeilis búin að hafa það huggulegt hér í kóngsins Köben yfir helgina. Á föstudaginn lagði hjúkkan land undir fót ásamt Maríu systir og þær lögð á vit verslananna og vitleysunnar í Kaupmannahöfn. Í upphafi var gist á Hótel 27 sem er tiltölulega nýuppgert hótel rétt við Ráðhústorgið. Innifalið í verðinu var "létt" hlaðborð sem systurnar ákváðu að gæða sér á á föstudagskvöldinu. Þær löguðu flugvéla andlitin og skelltu sér niður á veitingastaðinn, pínu svangar og fullar tilhlökkunar í boði Topash (Tópasar vinar síns). Létta hlaðborðið gaf þessu hugtaki algjörlega nýja merkingu. Fyrst um sinn þurfti eiginlega að leita að hlaðborðinu því það var svo rosalega létt. Eftir smá vangaveltur og fliss sáu systurnar að hér var virkilega um "létt" hlaðborð að ræða. Í boði var tómatsúpa í staupglasi, síldarbiti sem ekki reyndist vera síld, salat skál sem var reyndar vel útilátin miðað við allt annað ostur. Systurnar voru nú ekki alveg á því að þetta væri matur og sáu bita af hamborgarhrygg til hliðar við hlaðborðið - einhvers staðar var kjöt í boði, en hvar??? Að lokum fundu systurnar litla svarta potta sem innihéldu hamborgarhrygg (tvo munnbita) smá slettu af kartöflumús og 2 aspasbita. Já flissið varð enn meira og ákveðið var að fara bara nokkrar ferðir í litlu svörtu skálarnar :) Kvöldmatur var ekki aftur tekin á hótelinu!
Laugardagurinn fór í rölt um Strikið og áframhaldandi huggulegheit um kvöldið með ítalska þjóna sem virtust hafa þann eina áhuga að gefa eigin símanúmer. Á sunnudeginum var pakkað niður, túristast með rauðum túristabúss og skipt um hótel. Hjúkkan er sem sagt byrjuð að vinna og því var skipt um hótel. Nema hvað að vetratími tók gildi aðfaranótt sunnudags og því varð klukkan tvisvar sinnum 01! Þetta olli smá ruglingi hjá yngri systurinni sem stillti vekjarann vitlaust í morgun og systurnar sváfu næstum því yfir sig. María systir hélt út á flugvöll og hjúkkan fór á námskeið. Í kvöld kíkti hjúkkan svo í heimsókn til ofurparsins Nonna og Sofie á Lombardigade sem er hið huggulegasta, hélt fyrstu afmælisveisluna fyrir þau þar sem þau komast ekki næsta laugardag. Þetta er bara stemning að fara til mismunandi landa og halda upp á afmælið sitt :)

Engin ummæli: