26/08/2007

Blússandi sjálfstraust og stingandi augnarráð!
Helgin hefur nú aldeilis verið frábær hjá hjúkkunni. Hún er búin að fara á stelpukvöld, kíkja í búðir með Maríu systir og litlu prinsessunni, fara í tvöfalt þrítugsafmæli og slá í gegn að eigin mati. Tvöfalda þrítugsafmælið var eins og nostalískt MH reunion og þar var bara frábær stemning. Ótrúlega gaman að hitta fólk sem maður hefur ekki séð í mörg ár og það var mikið hlegið. Sjálfstraust hjúkkunnar jókst til muna og einn gamall kunningi komst að því að hann er sennilega síðastur að fá fréttir. Eftir afmælið lá leiðin á ölstofuna þar sem hópurinn var áfram í mikilli stemningu og ýmis misgáfuleg komment voru látin út úr sér.
Dagurinn í dag hefur farið í aflsöppun, bakvakt sem endaði með útkalli, þrif á heimilinu og brostnar vonir í kjölfar atburða í Landsbankadeildinni. En hjúkkan á í köldu stríði við stærðarinnar könguló sem hefur gert sig heimakæra utan á hús hjúkkunnar. Þetta er flennifeit hlussa sem hvæsir á mann ef maður kemur of nálægt. Nema hvað að hjúkkan var að viðra sængurnar sínar og þurfti því að fjarlægja vef köngulóarinnar og hana sjálfa því ekki vill maður fá svona kvikindi í sængina sína. Köngulóin var ekki hin hressasta þegar hjúkkan tók kústskaft, eyðinlagði vef hennar og skaut henni niður á grasflöt. Hjúkkan gekk inn og sótti sængurnar og var komin aftur út á svalir nokkrum mínútum síðar. Viti menn, henni mætti stingandi kalt augnarráð köngulóarinnar sem hvæsti á hjúkkuna. Jú kvikindið hafði skriðið á methraða upp húsvegginn og var tilbúin í slag. Hjúkkan sótti aftur kústskaftið góða og sá til þess að köngulóin myndi ekki spinna frekari vef á ævinni. Blessuð sé minning hennar!

Engin ummæli: