16/07/2007

Góðir menn eru til!
Trú hjúkkunnar á góðmennsku fékk endurræsingu í gær þegar hún var í öngum sínum við Reykjanesbrautina. Þannig var að hjúkkan var á leið heim úr grilli hjá gamla settinu þegar fóru að berast einkennileg hljóð aftan úr bílnum hennar. Hún ákvað að keyra aðeins lengra í þeirri veiku von um að hljóðið hætti - en svo fór ekki. Því keyrði hjúkkan út í kant við Reykjanesbrautina og fór að athuga með bílinn. Jú viti menn - alveg gjörsamlega sprungið á öðru afturhjólinu!! Nú voru góð ráð dýr - hjúkkan hafði einhvern tímann séð varadekkið undir dæminu í skottinu en hvar tjakkurinn var og svoleiðis dót var önnur spurning. Eftir góða leit fannst tjakkurinn og dótið undir dekkinu - kirfilega skrúfað niður svo enginn gæti mögulega losað hann og stolið!! Eftir stutta stund var hjúkkunni ljóst að hún gæti ekki losað tjakkinn og þarf af leiðandi ekki reddað sér. Hún hringdi nokkur símtöl en allir voru að horfa á úrslitin í Copa America eða að redda málum og enginn gat komið að hjálpa stelpunni.
Hún bograði eina ferðina enn inn í skottið og reyndi að losa draslið ( auðvitað í stutta gallapilsinu sínu..) og bar þá að þennan góða mann. Hann vatt sér upp að bílnum og bauð fram aðstoð sína. Hjúkkan þakkaði Guði fyrir þessa sendingu og gaurinn enga stund að redda þessu. Kom síðar í ljós að hann vinnur hjá Brimborg og kann því vel á svona bíla. Hjúkkan þakkaði honum af öllum hug og keyrði heim hin glaðasta með nýja trú á karlmönnum - þessir góðu eru til!!!
Í dag fór hjúkkan með dekkið í viðgerð þar sem það var úrskurðað látið - jamm stærðarinnar skrúfa var lengst inni í því og dekkið ónýtt að innan sem utan. Kosturinn við fyrirtækjabíla er að láta svo bara senda reikinginn á fyrirtækið og ganga brosandi burtu :)
Annars var fyrsti dagurinn í sumarfríi í dag og komst hjúkkan í gegnum hann án þess að skoða tölvupóstinn sinn. Hún skottaðist með Maríu systir og gullmolunum og gekk frá dekkjamálinu. Í kvöld brá nú hjúkkunni aldeilis við fréttirnar af TF- Sif sem lenti í sjónum. Sem betur fer sakaði engan og sá sem átti að vera á þyrlunni á þurru landi.

Engin ummæli: