22/05/2007

New York Baby!
Já hjúkkan er komin heim úr vel heppnaðri ferð til New York ásamt vinnufélögum og alls konar fylgifiskum. Eftir að hafa blómstrað í hópeflisferðinni sbr. lýsingar hér að neðan var hjúkkan þeim mun brattar við niðurpökkun daginn eftir og var sko ekki lengi að koma sér í ferðagírinn. Einkennilegir hlutir áttu sér þó stað við pökkunina og fór nú einn skartgripur með í óskilum, en hann hafði aldrei komið til New York og var snarlega pakkaði niður í veskið þegar þetta uppgötvaðist :)
Í New York var auðvitað gengið um, spókað sig, verslað, drukkið gott hvítvín og nokkrir mojito svo eitthvað sé nefnt. Hjúkkan var með stáltaugar er hún steig upp í hjólreiðavagn í mikilli rigningu á leið á Broadway. Þetta var fyrst voðalega fyndið en svo þegar hjúkkan uppgötvaði að hólavagninn var inni í miðri umferð á Manhattan og þar keyra allir eins og hálvitar, leið hjúkkunni ekki betur. Höskuldur fékk að finna samhug "félaga" sinna þ.e. hjúkkunnar og eins makans í ferðinni þar sem hringt var í drenginn af Broadway við lítinn fögnuð hans.
Besta múvið í ferðinni var samt vakning hjúkkunnar á laugardagsmorgninum. Hún hafði stillt vekjaraklukkuna á símanum og svo fór allt í gang og aumingjans ferðafélaginn var rifin fram úr. Hjúkkan var ekki upp á sitt besta við svona vakningu og þegar hún sá að enn var dimmt úti var henni enn minna skemmt. Svo kom að því - hún leit á klukkuna í herberginu sem sýndi 04:36 en ekki 08:36 eins og síminn!!!! Hjúkkan fann aðra klukku sem einnig var 04:36, klóraði sér í hausnum og hringdi niður í lobbý og spurði hvað klukkan væri eiginlega. Jú hún var 04:36 og hjúkkan gólaði af gleði áður en hún skreið aftur upp í og hélt áfram að sofa í 4 dásamlega klukkutíma til viðbótar.
Hótelið var voðalega hip og kúl og var meira að segja einhver Gavin maður Gwen í herberginu við hliðina á stelpunum, sem höfðu ekki hugmynd um hvaða gaur þetta væri. Frúin hans var víst með tónleika í borginni á laugardagskvöldið.
Svo er nú bara eitt!!!! Hvað er málið með að koma heim úr næturflugi frá USA, úr sól og blíðu í tilheyrandi minipilsi og gallajakka og það er snjókoma úti!!!!!!!!! Þetta voru ansi kaldar mótttökur sem hjúkkan fékk við heimkomuna, það þurfti meira að segja að skafa bílinn!!!

Engin ummæli: