08/07/2006

Kemur sjálfri sér sífellt á óvart!
Hjúkkan er enn einn daginn búin að koma sjálfri sér ótrúlega á óvart. Hún dreif sig í RL búðina í gær og keypti húsgögn á svalirnar enda gert ráð fyrir nokkrum sólardögum til viðbótar í sumar og mikil freknuvinna framundan. Stólarnir komu samansettir en hjúkkan þurfti að leita í eigin iðnaðarmanna hæfileika til að setja saman borðið. Hún gladdist mjög þegar hún sá fram á að hafa loksins eitthvað við verkfærasettið góða að gera. Því dró hún fram skrúfvélina sína og verkfærasettið og byrjaði á iðnaðarvinnunni. Eins og sannkallaður smiður setti hún borðið saman á meistaralegan hátt og tók nett fagn ein með sjálfri sér í stofunni sinni að framkvæmdinni lokinni. Því næst dró hún fram harðviðarolíuna og bar af mikilli natni á stólana og borðið. Nú vantar bara grillið á svalirnar og þá eru hjúkkunni allir vegir færir.
Eftir svona áfanga í framkvæmdum er auðvelt að ofmetnast og halda að maður geti allt og í augnarblik ætlaði hjúkkan að fara að negla í veggina hjá sér, en tók þá skynsamlegu ákvörðun að leita kannski eftir aðstoð með það! Já hún getur ýmislegt án þess að slasa sig hjúkkan og er greinilega farin að læra það að hún getur næstum allt!
Afmælisbarn dagsins er mágmaðurinn sem loksins er orðinn þrítugur og afmælisboð í tilefnis þess í kvöld. Nú er því mál að koma sér úr smíðagallanum og snyrta sig aðeins fyrir kvöldið.

Engin ummæli: