Þórsmörk, vinna og saumó!
Já hjúkkan var á faraldfæti um síðastliðna helgi og lagði leið sína inn í Þórsmörk. Ekki var útlega málið heldur að reyna að bjarga einhverjum af þeim ofurhugum sem ákváðu að hlaupa Laugarveginn og enduðu í Húsadal. Sem betur fer þurfti lítið að hafa afskipti af fólkinu en samt voru nokkrir sem fengu þann heiður að leyfa okkur að sinna þeim. Leiðin tilbaka fer í bækurnar sem einhver sú fáránlegasta þar sem tæpa 2 klst tók að komast úr Þórsmörk og niður á Hvolsvöll vegna bilunar í rútunni. Hjúkkan er engin bifreiðavirki en veit samt að það á ekki að stíga hvítur reykur undan rútunni og inn í farþegarýmið!!!
Vikan hefur enn sem komið er farið í vinnu og afslöppun og í kvöld var svo loksins saumó í Dofranum. Það var yndislegt að sjá stelpurnar, slúðra pínu, tala um stráka, hlægja og borða mat. Umræðurnar snérust um allt milli himins og jarðar og auðvitað er þagnarskylda bundin við ákveðin umræðuefni. En meðal annars sem rætt var um var Rockstar keppnin og árangur Magna. Það er auðvitað stórglæsilegt hjá stráknum að vera kominn þetta langt og frammistaða hans í gær var bara flott.
Af íþróttunum er það helst að frétta að vesturbæingarnir virðast ekki ætla að gera neitt til að halda sínum stuðningsmönnum þetta tímabilið!!! Já maður er nú farinn að velta því fyrir sér hvort hverfisliðið sé ekki bara málið. Þeir eru alla vega komnir áfram í undankeppni meistaradeildarinnar og sem sannur íþróttamaður óskar hjúkkan þeim góðs gengis!
19/07/2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli