20/07/2008

Fullkomlega frábær helgi að baki!
Hjúkkan situr nú í Dofranum þreytt en fullkomlega sæl og hamingjusöm eftir frábæra helgi fyrir vestan. Það voru nokkrir sem töldu að nú væri stelpan endanlega búin að tapa sér þegar hún ákvað að keyra á Þingeyri til þess að hlaupa 12 kílómetra eftir illfærum vegi. Jú stelpan skellti sér nefnilega í hlaup sem kallast Vesturgatan og fór fram um helgina. Um var að ræða 24km eða 12 km eftir strandveginum úr Arnarfirði yfir í Dýrafjörð í þvílíkri náttúrufegurð og dramatík. Þessi leið er dramatísk þar sem maður hleypur á vegbrúninni og horfir bara niður í þverhnýpið ef maður stigi of langt til hliðar. Hlaupið var frábært og hjúkkunni leið eins og í draumi mestan hluta leiðarinnar. Það var "brekka dauðans" undir lok hlaupsins sem var bara til þess að gera manni lífið leitt en endaspretturinn niður brekku og stelpan hljóp upp einn keppanda og framúr honum við endamarkið.... bara æðislegt. Staðfestur tími hefur ekki verið gefinn upp en Garmin tíminn er 1:12:50 og svo er bara að sjá hvað formlegur tími segir til um.
Eftir hlaupið fóru hlauparanir að tjöldunum, grilluðu og nutu þess að vera til. Sigur tilfinningin var engri lík og þess valdandi að nú er stelpan búin að ákveða að fara hálft maraþon í ágúst. Elín "Rocky þjálfari" á sannarlega heiður skilið fyrir allt púlið sem hún hefur látið hjúkkuna þrauka og skilaði sannarlega sínu um helgina.
Eftir niðurpökkun á tjaldi og dóti lá leiðin á Meðaldalsvöll þar sem Golfklúbbur Þingeyrar hefur aðsetur og 9 holur spilaðar. Það hefur verið látið uppi að 7. holan á vellinum sé ein sú fallegasta á landinu og það eru engar ýkjur. Hringurinn var góður 58 högg ( tvær holur eyðinlögðu allt...) og hjúkkan kláraði að gera allt sem hún lofaði sér að gera um helgina. Sökum leiðinlegrar veðurspár ákvað hjúkkan að "rúlla" í bæinn í dag frá Þingeyri - eftir 7 og hálfa klukkustund í bíl var hún mjög hamingjusöm þegar hún kom í Dofrann. En þvílíkt sem það er fallegt fyrir vestan. Næsta sumar verður tekið að einhverju leiti þar - það var ákveðið í dag.
Nú er afslöppun næstu daga enda sumarfríið enn í gangi og ekkert stress.
Hamingjuóskirnar fá Bragi og Vaka sem voru að eignast lítinn prins :)

Engin ummæli: