06/05/2008

Hygge sig!
Já Danir hafa nú fengið að njóta samvista með hjúkkunni frá því á sunnudaginn og kunna því greinilega vel. Allavega ef marka má veðrið sem búið er að vera, en hér hefur verið sól og brakandi blíða alla dagana. Hjúkkan situr nú inni stóran hluta dags en í öllum kaffipásum er næstum því hlaupið út í þeirri veiku von að ná í alla vega eina freknu.
Hjúkkan var nú svo fersk eftir daginn í gær að hún skellti sér á skokkið í kringum Söerne. Jú alveg hreint ofboðslega hyggeligt og gaman að hlaupa þessa leið. Hjúkkan var enn í sólargræðgi og var búin að meta hvora áttina hún skildi hlaupa í til þess að ná sem mestri sól. Viti menn allir danirnir hlupu í hina áttina og helst undir trjánum í skugganum. Hjúkkan var nú á því þetta væru bara áhugamenn um hreyfingu og gaf lítið fyrir þessa dönsku hegðun. Þegar um 5km voru búnir í glampandi sólskini og 20° stiga hita lá þá ljóst fyrir hjúkkunni hvers vegna danirnir hlupu allir í hina áttina og í skugganum - hjúkkan var að andláti komin úr hita.....
Hún náði þó að klára sína 6.3 km og druslast aftur á hótelið - rjóð í kinnum eins og ekki laust við að nokkrar freknur hafi bæst við í safnið. Höfuðverkurinn sem fylgdi í kjölfar sólar- og hitamengunarinnar gáfu hjúkkunni til kynna að þetta sólarhlaup hafi kannski ekki alveg verið rétt útpælt. Þess ber að geta að lífeðlisfræðileg kunnátta hjúkkunnar var skilin eftir uppi á herbergi áður en hlaupið hófst.
Í dag var svo annar dagur í kennslu og að honum loknum lá leiðin í hyggelighed með Nonna sínum og Þóri sínum. Hjúkkan var nú svo heppin að slá þriðju fluguna í sama högginu þar sem Haffi fékk smá sýnishorn af stelpunni en hann var að vinna og komst því ekki með. Á leiðinni til strákanna vildi nú ekki betur til en svo að hjúkkan villtist af leið. Það er greinilega ekki málið að hafa verið nokkrum sinnum í Köben. En að lokum fann hjúkkan leið sem lá í rétta átt, ekki vildi verr til en svo að hjúkkan gekk beint inn á mótmæla / kröfufund danskra hjúkrunarfræðinga á NyTorv. Torgið fullt af hjúkrunarfræðingum í stuttermabolum með skilti og allir vinir. Þetta var alveg frábær sjón og verklýðsbaráttutröllið kom upp í hjúkkunni. Ef hún hefði ekki verið á leiðinni að hygge sig með strákunum þá hefði nú örugglega fengið lánað spjald hjá collega sínum og skellt sér á útifundinn. Go sisters Go!!!

Engin ummæli: