09/10/2006

Lélegur dópisti!
Hjúkkan komst að því í dag að hún væri nokkuð lélegur dópisti. Í morgunsárið lá leiðin á Hringbrautina þar sem átti að gera síðustu skoðunina á pumpunni góðu. Hjúkkan var undirbúin fyrir rannsóknina og hafði hvorki fengið vott né þurrt frá því fyrir miðnætti kvöldið áður. Því var mallinn ansi tómur í morgun þegar farið var á fætur. Ekki tók nema um 30 mín að koma sér úr Dofranum niður á Hringbrautina í Reykjavík (fyrir ykkur sem vitið að Hringbraut er líka í Hafnarfirði) og fljótlega eftir komu þangað var hjúkkan háttuð ofan í rúm. Læknirinn kom og fór yfir dæmið með hjúkkunni og sagði henni að hún fengi smá kæruleysislyf til að gera þetta auðveldara fyrir hana. Því næst sagði hann henni að fljótlega myndi svífa á hana og hún ætti bara að hlusta á fyrirmæli hans á meðan rannsókninni stæði og þetta yrði ekkert mál. Þetta er það síðasta sem hjúkkan man þar til að hún rankaði við sér 3 klst síðar!!! Sérlegi aðstoðarmaðurinn var nú farinn að velta því fyrir sér hvort hjúkkan kæmi yfir höfuð aftur úr rannsókninni og kom og sótti hana þegar mesta víman var runnin af henni. Hjúkkan skreið svo upp í sófa og svaf þar það sem eftir leið dags eða til um klukkan hálf fimm. Þá fóru í gang ýmsar hugsanir um hvort hún hafi svarað í símann í svefnrofanum, hverja hún hefði talað við og um hvað. Fljótlega kom í ljós að einungis var um tvö símtöl að ræða og ekkert óeðlilegt fór fram í þessum símtölum.
Eftir kvöldmat var loksins almennilega runnið af hjúkkunni og hún bara nokkuð brött eftir allan svefninn. Eitt veit hún eftir þessa reynslu er að hún væri nokkuð lélegur dópisti!

Engin ummæli: