05/11/2006

Fortíðin, nútíðin og framtíðin!
Hjúkkan hefur haft allt of mikið á sinni könnu undanfarna daga. Hún er búin að setja saman markaðsáætlun, læra hvað markaðsáætlun er, fara á Dale Carnegie námskeið, gera nokkra skipulagslista og pakka í tvær ferðatöskur. Nú situr hún ein og afslöppuð á laugardagskvöldi, búin að horfa á rómantíska gamanmynd og er að spjalla við hana Maju sína í Nýja Sjálandi. Eftir miðnætti rann svo upp afmælisdagurinn með tilheyrandi aldurstengdu kvíðakasti og dramatík. Á hverju ári í kringum þennan ágæta dag fer hjúkkan í þessa krísu. Hún fer að hugsa um síðasta árið, komandi ár og hvernig hún ætlar að breyta öllu og gera allt betra. Síðustu tvö afmæli hafa einkennst af mikilli eigin dramatík sem auðvitað ná að magnast í huganum þegar maður er einn að rífast við sjálfan sig.
Næstu dagar og vikur fara í ferðalög um allan heiminn fyrst til Zurich og svo til Chicago. Hjúkkan nær einum smá blundi heima rétt yfir nóttina næsta laugardag og svo er hún þotin í burtu. Það er eins gott að eiga ekki einu sinni plöntu til að vökva þegar maður er á svona flakki enda myndi sú jurt ekki hanga lengi á lífi.
Fjölskyldan kemur í afmæliskaffi á morgun og svo er stefnan tekin á rólegheit annað kvöld með tilheyrandi afslöppun og ánægju.

Engin ummæli: