30/12/2007

Í tilefni áramóta!
Já nú er enn eitt árið að renna sitt skeið og tíminn flíygur áfram. Undanfarin ár hefur hjúkkan verið í áramótablús og yfirleitt farið á bömmer þegar farið var yfir liðið ár. En svo er nú aldeilis ekki í ár. Hjúkkan tók ákvörðun í desember að gera jólin og áramótin að eins streitulausum tíma og mögulegt væri og það hefur skilað sér í hamingju og vellíðan yfir hátíðirnar. Það eru líka mörg ár síðan hjúkkan borðaði eins mikið og hún hefur gert undanfarna daga og verður því hraustlega tekið á því í gymminu strax á nýju ári.
Það dreif ýmislegt á daga stelpunnar á árinu 2007 og hér koma nokkrir punktar:
- ferðir erlendis urðu 12 á árinu ýmist til Evrópu eða USA. Í einni ferðinni seinkaði flugi því klósettið í vélinni lak!
- skiptinemafjölskyldurnar voru heimsóttar við mikinn fögnuð
- bílgreyið fékk að finna fyrir því og endaði hann á verkstæði 3 sinnum á árinu
- pumpan lét illum látum og endaði á lyfjum
- elsta systir giftist með glæsibrag í undurfallegum kjól
- 10 kílómetrar voru hlaupnir á um klukkutíma í Reykjavíkurmaraþoni
- sagan endalausa heldur réttu nafni og virðist nú vera á réttri leið..hehe
- grillið fauk þrisvar sinnum!!! óvíst um framtíð þess í augnarblikinu
- hjúkkan hóf þátttöku með hljómsveitinni "Þrír með dívum"
- svolítið mörg pör af skóm voru keypt... ef þið giskið á rétt svar fáið þið verðlaun...
- hjúkkan varð þrítug!!!!!... óvíst með framtíð þess í augnarblikinu ....

Já þetta er brot af eftirminnilegum atburðum ársins og þeir voru nú margt fleiri en sumt er betur geymt ósagt :) Nú er mál að ganga inn í nýja árið með glæsibrag og markmiðið er að njóta þess fram í fingurgóma. Farið varlega með flugeldana elskurnar, ég verð ekki á slysó til að taka á móti ykkur....

24/12/2007

Jólakveðja
Ofurhjúkkan óskar vinum og vandamönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Hjartans þakkir fyrir ómetanlega vináttu í gegnum árin og megi nýja árið færa okkur fleiri góðar stundir, hamingju og styrk.
Kveðja
Fríða Björg

18/12/2007

Sjálflímandi frímerki!
Pósturinn fær mikið hrós frá hjúkkunni í ár fyrir að bjóða upp á sjálflímandi jólafrímerki. Eftir að hafa sleikt öll umslögin var tungan orðin ansi loðin og komið ferlegt bragð í munninn, að ógleymdi andremmunni sem þessu fylgir... Já smekklegar lýsingar en eitthvað sem allir kannast við í kringum jólakortabransann. Hjúkkunni var nú farið að kvíða nokkuð að þurfa að sleikja öll frímerkin líka og klígjaði eiginlega niður í tær við tilhugsunina. Þá kom ljósgeislinn í líf hjúkkunnar... jú jólafrímerki póstsins eru sjálflímandi :) :) :)
Það þarf greinilega ekki mikið til þess að gleðja hjúkkuna sem með bros á vör gekk frá öllum kortunum til sendingar og þá er þessu verkefni lokið í bili. Þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem hjúkkan sest niður og skrifar jólakort og var eiginlega búin að gleyma því hversu yndæl sú stund getur verið hjá manni. Kveikt er á kertunum á aðventukransinum og bara nokkuð góð jólastemning komin í stelpuna.
Nú er bara að klára að kaupa jólagjafirnar og redda nokkrum fundum í vikunni og fara svo og halda jólin.

10/12/2007

Brjálað veður!!!!
Það er ekki of sögum sagt þegar maður talar um brjálað veður í augnarblikinu. Fjörðurinn fallegi er gjörsamlega ófær vegna brjálaðs veðurs og hjúkkunni er ekkert sérstaklega vel við þetta allt. Hún skrapp á kóræfingu og á meðan fauk grillið um koll á svölunum og bara heppni að það fór ekki inn um gluggann! Nú er búið að binda allt lauslegt niður, koma öðrum hlutum inn í hús og vona það besta. Eitt sem vekur samt undrun og gleði hjá hjúkkunni og það er sú staðreynd að jólaseríurnar á svölunum hafa ekki haggast! Stelpan fór út í 6 stiga frosti um daginn og ákveð að setja þær tryggilega á svalirnar og það hefur aldeilis sannað sig þessa síðustu klukkutíma.
Nú er mál að reyna að snúa sólarhringnum aftur á rétt ról enda heimkoma frá New York í morgun með tilheyrandi tímarugli. Hjúkkan ætlaði rétt að blunda í 2 tíma en svaf af sér stjórnarfund og næstum því kóræfinguna líka.
Vonandi fer þetta veður að ganga yfir svo hjúkkan nái að sofa eitthvað í nótt, en það er lítill friður þegar veðrið stendur á svefnherbergis gluggann með miklum ofsa.

09/12/2007

Hi, how are you?!
Hjúkkan er þegar þetta er skrifað búin að pakka niður í ferðatöskuna (sem var hálftóm við komu) og undirbúa heimferðina á morgun. Já Stóra Eplið hefur fengið að njóta samvista við stelpuna í nokkra daga og hefur ekki farið illa um hana. Eitthvað fór verslunin hægt af stað enda svo sem lítið stress í gangi hjá stelpunni á þessu sviði. Ferðin út gekk vel og það var pínu þreyttur hópur sem loksins lenti í New York eftir 6 klst flug! Leiðin lá á hótelið í smá snarl og svo háttartíma. Í lyftunni á leiðinni upp á 29. hæð ræddu hjúkkan og íslenskur ferðafélagi málin (sem betur fer voða almennt) því auðvitað var gaurinn sem kom hlaupandi inn í lyftuna og leit út fyrir að vera Þjóðverji Íslendingur. Hann hlustaði gaumgæfilega og bauð svo laumulega góða nótt þegar hann steig út út lyftunni með ótrúlegt glott á smettinu. Voðalega fannst honum hann vera sniðugur!!!
Það var nú smá ástand í kringum hjúkkuna hér á hótelinu, þar sem lyftan stoppaði rétt við 17. hæð og neitaði að fara lengra. Eftir að hafa haldið ró sinni í nokkurn tíma tókst loksins að opna draslið og hjúkkan og lyftufélagar voru ekki lengi að koma sér út - svo var fundinn stigagangur og afgangurinn af ferðinni upp á herbergi tekinn í tröppunum.
Annars er New York alltaf jafn svakalega svona rétt fyrir jólin, fólk alls staðar, hávaði alls staðar og ekki farandi inn í lyftu nema að einhver þurfi að tala við þig! Alveg hreint merkilegur ávani hjá þessari ofvöxnu þjóð. Auðvitað ætti maður að taka prufu og svara einhvern tímann að allt sé í rugli og loksins sé einhver sem sýnir manni áhuga.... hehe spurning hvort viðkomandi hætti ekki að bera fram þessa spurningu við fólk sem hann þekkir ekki?