10/02/2008

Þoturass og þvottasnúru pælingar!
Hjúkkan lagði malbik undir bíl um helgina og skellti sér austur í Hagavíkina með góðra vina hópi. Svana og Binni voru að vana höfðingjar heim að sækja ásamt litlu prinsessunni sem teiknaði þessa líka fínu mynd handa hjúkkunni. Það verður nú að taka fram að Inga og Fribbi voru hjúkkunni erfið í spilunum á meðan Gulla sýndi hjúkkunni stuðning. Dagurinn í dag byrjaði á morgunverði meistaranna (Hjúkkunnar og Svönu) sem saman stóð af nettum Atkinskúr. Eftir létta meltu lá leiðin út í snjóinn og voru þoturass og plastpokar notaðir í snilldar brekku við húsið. Nokkrar góðar ferðir voru teknar og loks skellt sér í pottinn eftir góðan sprett í brekkunni. Heimferðin gekk vonum framar og fékk Focus jeppinn að njóta sín :)
Í kvöld var tekið til hendinni á heimilinu og þar á meðal sett í þvottavél. Þegar hjúkkan var að taka úr vélinni fór hún að velta því fyrir sér hvort maður hengi þvottinn á snúruna eftir fyrirfram ákveðnu kerfi. Þar sem hjúkkan er með sameiginlegt þvottahús eiga nokkrir leið framhjá snúrunni hennar. Eftir hið óupplýsta stóra g-strengs mál hafa þessar pælingar oft leitað á hjúkkuna við þvottinn, en er maður að setja fram statement með því hvernig maður raðar á snúruna? Ef maður vill að nágrannarnir haldi að maður sé voðalegur íþróttamaður setur maður auðvitað íþróttafötin fremst á snúruna - svo allir sjái hvað maður er duglegur í gymminu. Hvar enda þá nærfötin, og hvaða nærföt setur maður á snúruna? Bara flottu Victoríu fötin eða líka HM dulurnar sem voru margfalt ódýrari? Já þessar hugsanir hræddu líka hjúkkuna, því hver veltir því fyrir sér hvernig hann setur þvottinn á snúruna??

Engin ummæli: