04/04/2005

Töffari í snjóflóði!
Hjúkkutöffarinn fór tennis á sunnudaginn við mikinn fögnuð viðstaddra og hennar sjálfrar þar sem nokkuð duglega var tekið á brúsanum kvöldið áður. Kór Langholtskirkju flutti Jóhannesarpassíuna í annað sinnið þetta árið og þar með þurfti að slútta því um kvöldið. Eftir mikla gleði og hamingju lá leiðin heim og var ekki frá því að örlaði fyrir hausverk þegar hjúkkan vaknaði til þess að fara í tennis. Hjúkkan dreif sig af stað og fór á ofurtöffara bílnum Mözdunni 6 sem er með þaklúgu. Eftir svona misgóðan árangur í tennistímanum lá leiðin heim og auðvitað var þaklúgan opnuð - maður er nú einu sinni ofurtöffari. Allt gekk ljómandi fínt og töffarastigin hlóðust upp þar til komið var á bílastæðið og bílnum rennt mjúklega niður brekkuna. ÞÁ gerðust ekki mjög töffaralegir hlutir. Jú það hafði snjóað heilmikið aðfaranótt sunnudagsins og var enn töluvert af bráðnum og hálfbráðnum snjó á þaki töffarabílsins þegar hjúkkan renndi sér í stæðið og viti menn - allt í einu sat hún í kaldri og mjög blautri sturtu af klaka, krapi og vatni! Við tók heilmikið hreinsunarverk að þrífa allan sjóninn og krapann úr bílnum og loks komst hjúkkan inn - blaut og köld með frekar fá töffarastig á bakinu.

Engin ummæli: