09/12/2006

Skjótt skipast veður í loftum!
Hér í New York er réttast að segja að skjótt skipist veður í loftum... Í gær var hér 14 stiga hiti á celcius og í morgun var þetta líka netta 10 stiga frost!!! Já hitinn féll um 24 gráður á innan við sólarhring. Undir kvöld var nú aðeins farið að hitna en þetta er nú meira en góðu hófi gegnir.
Það er alveg ofboðslega mikið af fólki í þessari borg og áreitin eru ótrúleg. Í dag stóð hjúkkan á götuhorni þar sem einstaklingur frá Hjálpræðishernum söng jólalög í karaókí tæki á fullu blasti, glugginn hjá Macy´s söng jólalag að ógleymdri lyftutónlist dauðans sem barst úr hátalarakerfi fyrir utan búðina. Í ofanálag við þetta voru auðvitað bílflautur á fullu og hávaðinn var hreint út sagt ærandi. Kannski hjúkkan þurfi bara að horfast í augu við það að hún er ekki eins ung og ónæm fyrir hávaða og hún vildi halda. Eftir þessa upplifun fór hún í deildina fyrir gamla fólkið í Macy´s þar sem fáir voru á ferli og engin tónlist í kerfinu til að ná tökum á þessu öllu aftur.
Ráðstefnan er mjög áhugaverð og var til dæmis fyrirlestur í dag um rannsóknir á háþrýstingi sem styrktar eru af lyfjafyrirtækjum. Hjúkkan svitnaði nett þegar gaurinn fór að dissa allar helstu rannsóknir samkeppnislyfjanna og beið eftir að röðin kæmi að Novartis. En sem betur fer hafði hann ekkert út á það að setja og hjúkkan hélt andlitinu voðalega hugrökk.
Það er nú ýmislegt sem gekk á í lífi hjúkkunnar áður en að kom að þessari ferð og hefur hún nú reynt eftir bestu getu að leiða huga að öðru, en auðvitað koma tímar þar sem meira að segja hjúkkan vill vera ein með sjálfri sér. Og þegar það gerist þá leyfir hún sér það bara!!! Enda er þetta nú yfirleitt í skamma stund en maður verður að hlusta á sjálfan sig - því ef maður gerir það ekki hver gerir það þá????
Heimkoman er á mánudagsmorgun og verður spennandi að sjá hvernig tókst til með jólaseríuna á svölunum sem hjúkkunni skilst að séu komnar á sinn stað. Auðvitað fær Bandaríski efnahagurinn að njóta góðs af heimsókn hjúkkunnar og Mastercard ætti ekki að koma út í skuld eftir þennan mánuð. En nú er kominn tími á blund, enda ráðstefna og skoðunarferðir á morgun.

Engin ummæli: