31/01/2007

Afsakið skakkt númer!!
Eitthvað gekk hjúkkunni illa með símann sinn í kvöld og kom það meðal annars fram í síendurteknum röngum númerum sem hún hringdi í. Þetta byrjaði allt í lokin á Americas Next Top Model þar sem sást í ákveðna byggingu í Barcelona er minni helst á ofvaxið kynlífshjálpartæki (grínlaust.... hótelið sem hjúkkan gisti á í Barcelona er einmitt við hliðina á þessu skrímsli). Þar sem hjúkkan átti marga góða brandara með samstarfskonu sinni í tengslum við þessa byggingu ákvað hún að slá á þráðinn til hennar í lok þáttarins til að tjá sig um málið. Hjúkkan hefur margoft hringt í samstarfkonuna og veit uppá hár símanúmerið hjá henni. Ekki tókst betur til en svo að hún hringdi óvart í eina af hæstráðendum í Vistor, sem hafði nú húmor fyrir þessu öllu. Hjúkkan roðnaði nett í símann og náði svo í hláturskasti að slá inn rétt símanúmer. Eftir það samtal ætlaði hjúkkan að hringja í Þormóð og vildi ekki betur til en svo að hún einmitt - jú hringdi aftur í vitlaust númer. Í þetta sinn var það nú sem betur fer enginn innan fyrirtækisins sem svaraði, en það kom nú samt á óvart hver var hinum megin á línunni. Jú þetta ætlaði ekki að ganga upp hjá hjúkkunni og þegar hún hafði í þriðja sinn á innan við 45 mín hringt í rangt númer ákvað hún að hætta þessu kjaftæði og sætta sig við að hlusta á rausið í sjálfri sér... Sem betur fer eru bara tveir dagar eftir af þessari vinnuviku og stefnan tekin út úr bænum um helgina, ætli hjúkkan villist ekki á leiðinni? Kannski hún láti bara aðra um aksturinn..

30/01/2007

Nýju vátryggingarskilmálarnir!
Hjúkkan er búin að bíða spennt eftir bréfi frá tryggingarfyrirtækinu sínu sem vildi gera allt til þess að fá hjúkkuna í viðskipti hjá sér. Hjúkkan brosti út í annað þegar þetta blessaða fyrirtæki gekk á eftir henni með grasið í skónum, því greinilegt er að þetta fyrirtæki veit ekki mikið um Fríðuna!! Nema hvað í morgun komu svo nýju tryggingarskilmálarnir í pósti og með góðan kaffibolla í hendi kom hjúkkan sér vel fyrir í sófanum og hóf lesturinn. Þetta er hið áhugaverðasta plagg allt saman og hjúkkan í rónni yfir því að nú er hún tryggð í bak og fyrir NEMA (það er alltaf þessi litla klausa)
" ef tjón hlýst af völdum :
  1. jarðskjálfta, eldgoss, skriðufalls, snjófljóðs eða annarra náttúruhamfara,
  2. styrjaldar, innrásar, hernaðaraðgerða, borgarrósta, uppreinsar, uppþots, verkfalls eða svipaðra aðgerða,
  3. kjarnabreytinga, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis eða kjarnaúrgangsefnis.

Já eftir þennan lestur á því sem tryggingin coverar ekki er hjúkkan bara mjög ánægð að búa í Hafnarfirðinum þar sem hún er ekki í hættu á að lenda í skakkaföllum vegna fyrrnefndra atburða. Sem sagt hins skemmtilegasta lesnins og góð upphitun fyrir leik ársins á eftir Ísland - Danmörk þar sem hjúkkan hefur mikla trú á íslensku strákunum. Það er einhvern veginn fátt sætara en að rúlla dönunum upp... Hver veit nema bara eftir leikinn að við kaupum bara Tiovli og Litlu Hafmeyjuna þá er allt komið sem skiptir danina einhverju máli..

27/01/2007

Stoltust!
Hjúkkan er ofboðslega stolt af nokkrum hlutum í augnarblikinu. Fyrst ber að nefna nýju fartölvuna sem hún er komin með frá vinnunni og er hin krúttlegasta Dell talva. Svo má auðvitað ekki gleyma "strákunum okkar" í landsliðinu í handknattleik sem standa sig eins og hetjur í Þýskalandi. Það var nú í tæpara lagi leikurinn í dag og var orðið þó nokkuð um öskur og hvatningahróp yfir sjónvarpinu. Ráðgert er að sami hópur hittist á morgun og fagni sigri á Þjóðverjunum. Hjúkkan hefur óbilandi trú á því að strákarnir komi afslappaðir og fullir af leikgleði í leikinn á morgun og rúlli bara upp Þjóðverjunum. Síðast ber að nefna uppáhalds hornamann hjúkkunnar sem stóð sig eins og hetja í Íslandsmótinu í dag og sett inn 15 mörk!! Já það er nú ekki alltaf spurning um að vera of hávaxinn, þá er maður bara fljótari fyrir vikið!
Enn einn handboltamaðurinn á afmæli í kvöld og gaf hjúkkan honum nýtt gips í afmælisgjöf - í þetta sinn var gipsið neon gul-grænt! Til hamingju með afmælið og njóttu gipsins vel.

23/01/2007

Stundum verður maður orðlaus!!
Já það kemur nú ekki oft fyrir hjúkkuna að hún verði orðlaus, en það getur greinilega allt gerst. Síðustu daga hafa skipts á skin og skúrir og var sunnudagurinn einstaklega vondur dagur í íþróttalífi hjúkkunnar. Mikil hætta er á því að hjúkkan og Óskar geti aldrei horft á leiki saman þar sem allt fór fjandans til hjá liðum þeirra á sunnudaginn. En á mánudaginn kviknaði vonarneisti í íþróttahjarta hjúkkunnar þar sem hún sat heima í sófa með hroll og gæsahúð af stolti yfir "strákunum okkar" - þeir voru bara frábærir og sýndu að maður á aldrei að gefast upp. Nema hvað mánudagurinn byrjaði nú ekki eins vel og leikurinn endaði. Hjúkkan átti fund snemma morguns (fyrir klukkan 9) og sat prúð fyrir framan stofuna hjá þeim sem hún átti fund við. Á hægri hlið hjúkkunnar sat eldri maður sem talaði hátt og snjallt í símann og lýsti yfir dásemdum lífsins á sama tíma og hann pantaði tíma fyrir útför!!!! Já sumir vinna vinnuna sína á einkennilegum stöðum (að panta útför á biðstofu hjartalæknis fannst hjúkkunni alla vega svolítið súrt). Í miðju símtali mannsins vippar hann sér upp á hægri rasskinn og lætur flakka þetta líka blauta og rasskinnanötrandi prump!!! Eins og ekkert hefði í skorist hagræddi hann sér að því loknu á báðar rasskinnar og hélt áfram að tala í símann!!!!! Já góð byrjun á vikunni að láta ókunnuga reka við á mann!

16/01/2007

Hættulega sjálfhverf!
Hjúkkan kom sjálfri sér í þó nokkra hættu í kvöld sökum sjálfhverfu. Þannig var að hún var nýbúin að lesa frásögn af einstaklega vel heppnaðri spænsku kunnáttu sinni sem átti sér stað í vinnuferð til Barcelona síðastliðið haust er hún ákvað að fá sér góða sopa af Pepsi Maxinu. Þar sem hjúkkan var nú enn hálf hlæjandi af sjálfri sér tókst ekki betur til en svo að allt pepsíð rann beinustu leið niður í lungu og mikill hósti var það eina sem hjúkka uppskar. Atvikið sem gerði hjúkkuna svona voðalega glaða var sem sagt í leigubíl í Barcelona. Þar sem hjúkkan hafði nú tekið spænsku 103 hérna um árið (f. ca 12 árum síðan) var hún full sjálftraust á eigin getu til að tala spænsku. Leiðin lá að einhverju torgi við einhverja kirkju og hjúkkan var að rembast við að gefa leigubílstjóranum leiðbeiningar á spænsku (jú mín var svo ógeðslega góð í spænskunni) og eitthvað virtist leigubílstjórinn ekki vera að skilja hjúkkuna. Hann var farinn að baða út höndunum og vandræðast mikið og leit þá hjúkkan á hann með nettri fyrirlitningu (því leigubílstjórinn var svo lélegur í spænsku) og sagði kokhraust: ...no no no, CON CARNE!!!" Jább andartaki síðast trilltist samstarfskona hjúkkunnar úr hlátri í aftur sætinu og leigubílstjórinn líka, þá loksins heyrði hjúkkan þá snilld sem út úr henni hafði komið. Nei félagi við ætlum ekki á torgið - bara með kjöti!!!!!! Spænsku færnin var þá kannski ekki eins mikil í raun og veru!

06/01/2007

Ágætis byrjun!
Árið 2007 fer ágætlega af stað hjá hjúkkunni sem er nýkomin heim frá Danmörku. Ekki var nú mikill tími til félagslegra heimsókna til vina og vandamanna í Köben að þessu sinni en vonandi verður bætt úr því næst. Hjúkkunni til mikillar gleði og undrunar birtist Höskuldur í áramótaskaupinu. Hún fór nú að hugsa hvort hún hefði átt að vita af þátttöku hans í skaupinu, en getur ekki fyrir sitt litla líf munað hvort þessa umræðu hafi borið á góma. Eitt af nýársheitum hjúkkunnar (heppilegt þar sem hjúkkan strengir ekki nýársheit) ætti því að vera að taka meira eftir því sem sagt er við hana. Henni til mikillar lukku er þó til fólk sem er með eindæmum gleymið og maður veltir því alvarlega fyrir sér hvort þessir einstaklingar séu yfirleitt að hlusta þegar maður talar!!!!
Nú er utanlandsferða frí í tæpa tvo mánuði og ætlar hjúkkan að njóta lands og þjóðar í allan þann tíma. Fyrirhuguð er ferð úr bænum og vonandi áframhaldandi stemning á árinu. Svo er auðvitað farið að styttast í HM í handbolta með tilheyrandi pizzuáti og íslenskri stemningu. Hversu lengi ætli "strákarnir okkar" verði "strákarnir okkar"???

01/01/2007

Gleðilegt nýtt ár!!!
Já viti menn nú er bara árið 2007 byrjað og það hófst nú bara á rólegu nótunum hjá hjúkkunni. Hún bauð foreldrunum og frænda í mat á gamlárskvöld og komst að því að þá má búa til sósu úr ótrúlegustu hlutum! Allir borðuðu nægju sína og svo hófst reglulegt annála áhorf og svo skaupið. Hjúkkan skemmti sér nú ágætlega yfir skaupinu og svo voru það skotárásirnar sem hófust í kringum miðnættið. Að þessu sinni var farið upp á hól í Áslandinu ásamt fleiri hafnfirðingum og var útsýnið alveg ótrúlegt. Eftir kampavínssopa í Kríuásnum lá leiðin aftur í Dofrann þar sem sófinn endaði sem deit kvöldsins hjá hjúkkunni.
Á nýju ári er nú til siðs að fara yfir síðasta árið og hér koma helstu punktar þess:
  • hjúkkan flutti ekki á árinu sbr. endalausa flutninga 2005
  • árið byrjaði erfiðlega og reyndist í heildina á köflum mjög ósanngjarnt
  • skipt var um vinnu á miðju ári og þá fyrst fóru utanlandsferðir að taka kipp
  • hjúkkan man ekki lengur hvað hún er búin að fara í margar ferðir til útlanda á síðasta ári
  • sápuóperan er eins og góð mexíkósk sápa, virðist engan enda ætla að taka
  • hjúkkan keypti sér jeppling, sem hún síðan seldi og klessti loks!!
  • Björgunarsveit Hafnafjarðar kom hjúkkunni til bjargar eftir veðurofsa og snjóskafla sem ollu því að bíllinn sat sem fastast
  • tíðni óheppilegra atvika var eins og í meðalári - á bilinu 1 til 2 atvik á mánuði
  • hjúkkan strengdi engin áramótaheit frekar en fyrri árin

Jæja þá er þessari litlu upptalningu lokið enda árið búið og komið nýtt ár með nýjum tækifærum. Hvetur hjúkkan alla til þess að njóta nýja ársins og láta ekkert stöðva sig.