07/05/2005

Af almennum hrakförum hjúkkunnar!
Eins og þeir sem þekkja hjúkkuna vita þá á hún það til að lenda í hrakförum. Dagurinn í gær byrjaði einmitt þannig. Þannig var mál með vexti að hjúkkan fór afslöppuð að sofa, en fannst samt eins og hún ætti að mæta á fund áður en hún færi til vinnu sinnar. Nema hvað, án þess að líta í dagbókina sína varð hún fullviss um að þetta væri nú bara rugl og engin ástæða til þess að ætla að hún ætti nokkuð erindi fyrir kvöldvaktina. Glöð í bragði vaknaði hún úthvíld um kl. 11:30 og hugsaði sér gott til glóðarinnar. Nú skildi virkilega slappað af í góðri dekursturtu með tilheyrandi andlitsmaska, djúpnæringu í hárið og fjarlæginu á óæskilegum líkamshárum. Allt var eins og það átti að vera - gúrkuandlitsmaskinn var kominn á andlitið, djúpnæringin í hárinu og hjúkkan búin að raka af sér hárin á öðrum fætinum þegar síminn hringir. Fersk stekkur hjúkkan á símann og sér að hjúkkuvinkona er að hringja. Hún svara glöð í bragði og spyr hvað sé að frétta. Jú hún sé nefnilega í dekursturtu og eigi bara eftir annan fótinn í rakstrinum. Viti menn - hjúkkuvinkonan í símanum spyr glettin hvort hjúkkunni líði ekki yndislega í þessari afslöppun, en einnig hvort hún eigi ekki að vera komin í vinnuna! Hjúkkan rak upp skelfingaróp þegar hún uppgötvaði að hún var búin að skrá sig á aukavakt fyrir kvöldvaktina og var sem sagt orðin of sein. Hún baðst innilegrar afsökunnar og sagðist verða komin innan skamms. Nú voru góð ráð dýr, annar fóturinn rakaður - hinn enn mjakaður raksápu, andlitið hulið agúrkumaska og djúpnæring í hárinu!!!! Margir myndu kalla það ástand sem myndaðist á baðherberginu frekar alvarlegt. En á svipstundu spratt hjúkkan hárunum af leggnum, skolaði andlitið og hárið, hentist í föt og keyrði sem leið lá í vinnuna. Svona til þess að toppa daginn var vaktin síðan gífurlega krefjandi en hjúkkan ánægð því hún er silkimjúk á fótunum, andliti og í hári og ekkert annað að gera en að gera sitt besta. Eftir vaktina lá leiðin beint heim í sófann til besta vinarins - sjónvarpsins. En nú er mál að linni og hjúkkan er farin í háttinn!

Engin ummæli: