11/09/2005

Ógleymanleg!
Helgin sem langt er nú komin hefur verið ógleymanlega fyrir hjúkkuna. Því lík og önnur eins vanlíðan og almenn leiðindi hafa varla sést í lífi hjúkkunnar í mörg ár. Þetta á þó aðeins við um laugardaginn (frá 06 um morgun til 02 um nótt). Súperkvendið og Dóa sæta komu til að hjúkra hænunni og slúðra aðeins með henni á föstudagskvöldið og áttu þær svona líka yndislega stund saman píurnar. Þær fóru nú heim á skikkanlegum tíma enda veður vont og hjúkkan þreytt. Um kl 06 á laugardagsmorgni byrjaði svo ballið hjá hjúkkunni. Hún vaknaði með þennan líka nístingsverk í andlitinu og dreif í sig tvöfaldan skammt af verkjalyfjunum og lagðist aftur til hvílu. Um einni og hálfri klukkustund síðar vaknaði hjúkkan við ógleymanlega kviðverki og leið henni sem maginn á henni vildi komast út úr líkamanum. Eftir ýmsar pælingar og leiðir til þess að láta sér líða betur kom loks heimsókn til GustavBerg og áttu þau góðar stundir saman. Loks náði hjúkkan að sofna aftur enda uppgefin eftir stefnumótið við Gustav. Hjúkkan blundaði aðeins og dreif sig svo inn í sófa um kl. 10, þá full sjálfsvorkunar og vanlíðunar. Í kjölfarið hringdi hún í þjónustuver símans og fékk sér áskrift af Enska boltanum!!! Víííí nú tók hjúkkan gleði sína á ný og hélt af stað í apotek til að kaupa meiri verkjalyf. Á leiðinni varð á vegi hennar útsala í Skífunni og ákvað hjúkkan að hún ætti eitthvað gott skilið. Þar keypti hún sér nokkra eðla DVD diska - Flashdance, Airplane og Airplane the sequel. Megabeibið kom svo og horfði á leikinn með hjúkkunni og voru þær ekki alveg nógu sáttar við gengi sinna manna, en þetta var þó alla vega ekki Tottenham sem Man Utd var að spila við! Kvöldið fór í einmanna dvd gláp þar sem báðar Airplane myndirnar voru teknar. Og svefninn skall á um kl 02. Sem sagt alveg hreint ógleymanlegur dagur hjá hjúkkunni!

Engin ummæli: