30/09/2005

Komin heim úr kjötbollulandinu!
Hjúkkan er komin heil heim eftir mjög svo ógleymanlega ferð til kjötbollukónganna í Svíþjóð. Það var nú aðeins betra veðrið þar - bara svona 16 - 18 stiga hiti og sól en hver er að kvarta, nístingskuldi og rok eru góð fyrir húðina! Tíminn í Uppsala stendur upp úr enda var svo dásamlegt að hitta litlu prinsana og foreldra þeirra. Heimsóknin til Hennes og Maurtiz gekk vonum framar og hjúkkan náði ótrúlegum árangri í verslunarleiðangri á stuttum tíma. Hún er jafnvel að hugsa um að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum verslunarfíkla. Litlu prinsarnir bræddu hjarta hjúkkunnar þegar hún var að fara inn í flugstöðina því þeir vildu ekki að hún færi heim. Flugið heim var einkennilegt - flugstjórinn var búinn að vara við vondu veðri enda þeystist áhöfnin af stað um leið og mögulegt var, skellti matnum fram og Sagabutique og dreif sig svo bara aftur í sætin sín. Flugstjórinn kom í kallkerfið og bað fólk um að halda kyrru fyrir vegna ókyrrðar og hafa sætisbeltin spennt. Þessi ókyrrð fór nú ekki fram hjá neinum sem var um borð í vélinni og voru flestir pollrólegir í sætum sínum. Allt í einu kemur flugfreyja í kallkerfið í mikilli örvæntingu og ítrekar að allir eigi að vera í sætum sínum og var hún hálf ógnvekjandi þar sem fluffan virkaði í pínu panic. Hjúkkan þekkir nú nokkra einstaklinga sem hefðu sennilega þurft að skipta um brók eftir flugið en að lokum tók ókyrrðin enda og vélin lenti heil í Keflavík. Nú er mál að koma sér aftur í Íslands gírinn og drífa sig í vinnuna og djamma svolítið í kvöld með vinnufélögunum.

Engin ummæli: