23/09/2005

"Klukkæðið"
Hjúkkan hélt að hún kæmist undan flestu í þessari tölvuveröld. Hún til dæmis skrifaði aldrei neinn 100 atriða lista um sjálfa sig og hefur að mestu lifað góðu lífi í kjölfarið. En þar sem hjúkkan er nú félagslynd með meiru og oft til í leiki þá ákvað hún að taka áskorun Lou í Leeds og láta uppi 5 gjörsamlega tilganslausar staðreyndir um sjálfa sig:
  1. Þegar hjúkkan var 6 ára ætlaði hún að giftast einum bekkjarbróður sínum - sú varð ekki raunin. Þessi ágæti drengur vann sér þó ýmislegt til frægðar á unglingsárunum og þakkar hjúkkan örlögum sínum að ástin entist ekki.
  2. Hjúkkan hefur löngum verið þekkt fyrir það að tala - hún talaði svo mikið sem barn að foreldrar hennar borguðu henni fyrir það að þegja í fjölskylduferð í Þýskalandi þegar hjúkkan var 7 ára.
  3. Hjúkkunni er yfirleitt kalt á höndunum og finnst lítið annað betra en að stinga þeim inn á heita bumbu á einhverjum grunlausum.
  4. Hjúkkan er stundum svolítið óheppin og hefur óheppni hennar fengið nafn og er kennt við ákveðinn sjúkdóm sem skýrður var í höfuðið á henni. M.a. hefur hjúkkan opnað bílhurð í andlitið á sjálfri sér, orðið fyrir bílskúrshurð, skallað sjúkrabíl og síðast en ekki síðst - þá datt hjúkkan út úr rútu fyrir mörgum árum síðan.
  5. Hjúkkunni finnst almennt mjög gott að sofa og þá helst á vinstri hlið. Eins er hjúkkan ekki neinn sérstakur morgunhani og þeir sem halda að morgunstund gefi gull í mund geta bara átt sig.

Jæja þá er þessari upptalningu lokið og hjúkkan útkeyrð eftir miklar pælingar í því hvað eru gagnslausar staðreyndir. Þá eru það næstu fórnarlömb þessa bráðskemmtilega leiks - Dóa litla, Bragi, Roald og jafnvel hann Þormóður.

Engin ummæli: