12/07/2004

Það er að kvikna í - hvað er að brenna?
Kvöldvaktin í kvöld var alveg einstök, samt einhvern vegin lýsir hún lífi ofurhjúkkunar mjög vel. Jú allt gekk sinn vana gang. Mánudagskvöld og fullt af fólki að bíða þegar vaktin tók við. Þetta fór vel af stað og áður en maður vissi af var komin kvöldmatur. Uppáhaldsmatur ofurhjúkkunar var á boðstólnum - plokkfiskur, rúgbrauð og hindberjasúrmjólk í eftirmat. Þetta er einhver sá besti matur sem maður fær á spítalanum, þannig að ofurhjúkkan lét ekki sitt eftir liggja og borðaði vel - meira að segja auka sneið af rúgbrauðinu. Eftir mat gekk á ýmsu og í miðri meðferð á einni konu heyrist mjög hátt í slökkviliðinu og löggunni. Úff þetta boðar ekki gott hugsaði ofurhjúkkan - hljómar eins og margir séu að koma hingað með reykeitrun eða einhvern fjanda. Ofurhjúkkan bregður sér fram á gang og mætir þar megnri brunalykt!! Bíddu er kviknað í hjá okkur??? Ofurhjúkkan fann annan hjúkrunarfræðing sem var jafn hissa og saman leituðu þeir svara hjá vaktstjóranum. Jú það var víst kviknað í þakinu hjá okkur og slökkviliðsmenn sáust skjótast upp á þak með slöngur. Hvað gerir maður þá?? Best að koma þeim sjúklingum heim sem máttu fara og svo bara chilla - strákarnir í slökkviliðinu eru nú ansi klárir kallar. Sjúklingar voru látnir vita hvað væri að gerast og að mögulega þyrftu þeir að fara út - en allir voða rólegir yfir þessu. Svo slokknaði eldurinn og lífið hélt áfram sinn vana gang. Ofurhjúkkan átti leið fram hjá tölvuborði sem ákvað að fá taugaáfall og detta í sundur og lenda á fætinum á henni - ah þetta var vont! Já það gerist sem sagt ýmislegt á slysadeildinni!

Engin ummæli: