Jólastemning!
Jólin koma fyrr í ár en yfirleitt - alla vega á Kambsveginum hjá ofurhjúkkunni. Litla hjartað gladdist töluvert í dag þegar öllum þessum snjó kyngdi niður og í huganum er verið að búa til snjóengla og borða smá snjó. Maður kemst alltaf í svolítið jólaskap þegar svona snjóar og svo ekki sé talað um þegar bílar fara að festast í snjónum. Kvöldið átti að fara í karlmennsku með tilheyrandi hamborgara, bjóri og bíó en því var frestað sökum jólastemningar. Í staðinn var geisladisk með Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju skellt í spilarann og óma fögur jólalög undir þessum skrifum. Jólin alls staðar og fleiri yndislegir smellir kæta þetta litla hjarta og það er stutt í að ofurbakstur hefjist á heimilinu. Held reyndar að þær 5 sortir sem bakaðar voru í fyrra verðir slegnar út í ár og sjötta sortin bætist í safnið. Maður er alveg að missa sig hérna, held að það sé ekki sniðugt að fá svona margra daga frí frá vinnunni. Annars leitar nú hugurinn til samstarfsfólksins sem finnst örugglega engin stemning í þessum snjó og þessari hálku. Það eina sem vantar núna er smá bökunarlykt og kanill og þá eru jólin komin.
16/11/2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli