Glamúr 2006!
Þema árshátíðarinnar var Glamúr 2006 og var það svo sannarlega vel til fundið. Allir skörtuðu sínu fallegasta og maturinn alveg hreint yndislegur. Mikið var tjúttjað, trallað, drukkið og dansað enda var hjúkkan sárfætt daginn eftir! Einn deildarlæknir liggur þó í valnum, gjörsamlega farinn í bakinu eftir þvílíkar danssveiflu með tilheyrandi dýfum á hjúkkunni. Hún hélt óstöðvandi áfram en greyið Jakob var alveg frá. Allt í einu var ballið búið og leiðin lá í eftirpartý hjá Bergi og Maríu í Nóatúninu. Þar var fjöldinn af fólki saman komið og djammið hélt áfram. Undir morgun sá hjúkkan sér til mikillar hamingju að hún var í næsta húsi við soninn og skrölti því yfir í Stangarholtið þar sem hennar beið óvæntur Hlölli, stuttermabolur, tannbursti og sæng. Það er svo magnað hvað maður getur verið fallegur eina kvöldstund og jafn ósjarmerandi þegar maður vaknar daginn eftir. Hjúkkan hafði nú munað eftir því að þrífa af sér stríðsmálninguna og taka spennurnar úr hárinu - en vá hvað það var lítið um fegurð morguninn eftir. Til að gera lúkkið en verra hjá manni þarf maður að fara aftur í sama kjólinn og háu hælana og koma sér heim. Hjúkkan þakkaði öllum þeim æðri máttarvöldum sem til eru að hafa ekki hitt neinn á leiðinni í bílinn sinn og svo á leið sinni yfir bílastæðið við húsið sitt. Hún komst nokkuð óséð heim í sturtu, afslöppunarfötin og feitt stefnumót við sófann. Kvöldið fór í að horfa á Russel Crowe bjarga Róm á meðan úti snjóaði og stemningin minnti einna helst á góðan göngutúr í Heiðmörkinni með kaldar hendur og kaldan og blautan nebba.
Nú er hjúkkan komin á skrið á ný, formúlan í sjónvarpinu og tennis á næsta leyti.
12/03/2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli