30/03/2006

Hálfaumingjaleg!
Hjúkkan er eitthvað hálf aumingjaleg í dag, þar sem hún situr í móttökunni í vinnunni og þakkar öllum þeim sem ekki þurfa að leita sér astoðar á slysadeildina. Hún er þreytt eftir að hafa verið allt of lengi úti í gærkvöldi, og veit að hún getur engum öðrum en sjálfri sér um kennt. Henni er illt í bakinu - þar skrifast á sjúkraþjálfarann sem var að hjakkast á grindinni í gær við lítinn fögnuð viðstaddra. Eitthvað fóru dansæfingar helgarinnar og ísskápsburðurinn illa í grindina á hjúkkunni og hún þurfti því að fá smá aðstoð frá sjúkraþjálfaranum sem er hið besta skinn. Nema hvað það sem hjúkkan var búin að skammast sín fyrir að vera fífl og dansa eins og fífl og lyfta ísskáp eins og fífl og fá þ.a.l. í bakið eins og fífl þá spurði nú sjúkraþjálfarinn af hverju í ósköpunum hjúkkan væri að standa í þessu ein - hvað væri maðurinn hennar eiginlega að gera?? Hún gaf upp hjúskaparstöðu sína og benti sjúkraþjálfaranum á það að í ljósi stöðunnar væri bara enginn annar til að gera þessa hluti. Þá brá sjúkraþjálfarinn á það ráð að segja bara hjúkkunni að auglýsa eftir manni!!! Og viti menn hann var meira að segja fljótlega kominn með þessa fínu auglýsingu fyrir hjúkkuna, og lofaði að auglýsingin myndi bera árangur :) Já það eru greinilega margir farnir að hafa áhyggjur af hjúskaparstöðu hjúkkunnar sem er hin ánægðasta.

Engin ummæli: