Hvernær er maður hégómafullur!
Hjúkkan er að undirbúa árshátíð á vinnustaðunum og hefur auðvitað sótt nokkrar fegrunaraðgerðir sjálf. Í kvöld sat hún heima við krosssauminn sinn og fór að hugsa um hégóma hjá fólki, þá aðallega kvenfólki. Konur vilja vera plokkaðar og litaðar, strýpaðar og klipptar og að flestu leyti hárlausar þegar kemur að svona skemmtunum en svo rann það allt í einu upp fyrir hjúkkunni að þetta er alls ekki bundið við neinar skemmtanir. Konur eru sífellt að afsaka sig á slysadeildinni ef þær eru með órakaða fótleggi, ekki í nógu hreinum sokkum eða jafnvel sveittar - þó svo að þær hafi komið með sjúkrabíl beint af íþróttaræfingunni. Já og hjúkkan veit að hún er alls ekkert betri í þessum málum en þessar konur. Hún rankaði allt í einu við sér í saumnum, stökk af stað inn á baðherbergi því hún uppgötvaði það að hún var ekki búin að raka á sér fótleggina. Ok nú hugsa margir örugglega - er ekki árshátíðin á föstudag og nægur tími til stefnu?? Jú jú en í morgun fékk hún skyndilega upphringingu frá sjúkraþjálfaranum sem var að flýta tímanum hennar. Hjúkkan átti ekki að mæta fyrr en á mánudaginn en sjúkraþjálfaranum fannst það ómögulegt og gaf henni tíma í fyrramálið. Hjúkkan var ekkert nema hamingjusöm með sjúkraþjálfarann og hugsaði með sér að þetta væri nú alveg einstök þjónusta hjá manninum. NEMA HVAÐ þar sem hjúkkan sat á sófanum að sauma út fattaði hún það allt í einu að hún væri sem sagt að fara í sjúkraþjálfun í fyrramálið og væri ekki búin að raka á sér lappirnar!!!! Já hjúkkan dreif sig í fegrunarsturtu og hárin voru látin fjúka eins og andfúl kærasta. Eftir sturtuna fór hjúkkan að hugsa um eigin hegðan og komst að því að hún er alveg jafn hégómafull og allar hinar konurnar!! En glöð í hjarta fer hún með silkimjúka fætur í sjúkraþjálfun í fyrramálið!!!
07/03/2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli