Kosningatækni!
Hjúkkan fór í afmæli í gær hjá syninum og skemmti sér mjög vel. Eftir afmælið lá leiðin á Oliver og þar fékk hjúkkan einhverja þá einkennilegustu viðreynslu spurningu sem hún hefur á ævi sinni heyrt. Þessi spurning var svo óeðlileg að hjúkkan getur ekki einu sinni sett hana fram á þessari síðu. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um árangur þessa manns gagnvart hjúkkunni sem setti upp mjög ákveðinn svip! Hjúkkan ætlaði að labba heim enda var veður gott - þar til hún uppgötvaði að hún býr í Hafnarfirði og það væri nú nokkuð góður spölur að ganga á 7cm háum hælum. Því fann hún sér leigubíl og skilaði sér heil heim í sófa og mörgæsir.
Í dag dreif hjúkkan sig á kjörstað og gerði tilraun til að kjósa í fyrsta sinn í Hafnarfirði. Í síðustu tveimur kosningum hefur hjúkkan kosið utan kjörfundar og því bara fengið stimpil með flokks-bókstafnum og málið leyst. En í dag var henni réttur bleikur kjörseðill með fullt af kössum og nöfnum fólks á. En spurningin sem brann á vörum hjúkkunar var einfaldlega krísan milli þess hvort átti að setja x við listabókstafinn eða gera hring utan um hann!!! Já einfaldir hlutir geta flækst ótrúlega fyrir hjúkkunni. Hún stakk því nefi sínu út úr kjörklefanum, brosti ljóshært og spurði góða fólkið við kjörborðið hvernig hún ætti að bera sig að. Þau brostu góðlátlega á móti og sögðu hjúkkunni að gera x við listabókstafinn. Ætli þau hafi ekki líka hugsað sér hversu ótrúlega vitlaus þessa gella væri - kann ekki einu sinni að kjósa!!!! En atkvæðið er komið og nú er í gangi sumarhreingerning Dofrans. Í henni fellst að taka til í eldhúsinu, moppa gólfin og horfa svo aðeins meira á sjónvarpið.
27/05/2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli