20/06/2006

Sólbrún, freknótt og útbitin á fótum!
Hér í Uppsala er lífið aldeilis búið að vera dásamlegt. Sólin hefur skinið skært enda hefur fjöldi frekna á hjúkkunni aukist töluvert og það er farið að glitta í smá brúnku undir öllum freknunum. Kannski eru þetta bara freknuklasar sem mynda þennan brúna lit en maður túlkar bara hlutina eins og maður vill.
Strax eftir komuna hingað var haldið í 17. júní grillveislu með Íslendingafélaginu sem haldin var í parki hér rétt í Uppsala. Að sænskum sið var auðvitað boðið upp á grillaðar pylsur og gos og allir léku sér í ýmsum leikjum í steikjandi hita. Moskítóflugurnar voru yfir sig ánægðar að fá nýtt blóð og héldu sig við fætur hjúkkunnar þar sem tugur bita var skilinn eftir. Hjúkkan ætlaði nú að gera lítið úr þessu - hana klæjaði ekki einu sinni í bitin! En hún hrósaði happi of snemma því daginn eftir voru þau flest orðin upphleypt, rauð og fæturnir ekki sérlega frínilegir áhorfs. Önnur nóttin hér fór í klórun og bölvun á þessum fjárans bitum og daginn eftir lá leiðin beint í apotek til að kaupa deyfi smyrsli sem virkar dásamlega. Viti menn kláðinn minnkaði og fæturnir eru að ná fyrri fegurð.
Annars hefur hjúkkan farið varlega hér og tekist nokkurn vegin að komast hjá sjálfskaða og óhöppum. Hún tók reyndar nett móment eftir sturtu um daginn þar sem hún fálmaði eftir gleraugunum sínum er lágu á vaskinum. Ekki vildi betur til en svo að í brussugangi sínum sló hún óvart gleraugun af vaskinum og lentu þau á gólfinu. Ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist hugsaði hjúkkan og teygði sig eftir þeim. Viti menn - auðvitað kom sprunga í annað glerið við þetta óhapp og nú blasir við fjárfesting í nýjum gleraugum eftir heimkomu á klakann!!! Af hverju eru sumir svona óheppnir????
Í dag er mikilvægur dagur í Svíþjóð og eru Svíarnir rétt við það að missa sig yfir leiknum í kvöld. Í öllum blöðum er vellt upp myndum af Zlatan og Olof Mellberg annars vegar og Svennis (eins og þeir kalla Ericson) hins vegar. Í gærdag var byrjað að telja niður fyrir leikinn og þá voru 27 klst. til leiks!!! Svo er verið að tala um að Íslendingar setji pressu á sitt landsliðsfólk! Það verður heilmikil grillstemning hér í Uppsala og drengirnir klæddir í sænska gallan sem þeir eiga. Hjúkkan var að spá í að kaupa sér treyju en eftir samtal við góðkunningja ákvað hún að sleppa því. Það er mjög góður punktur að kaupa sér ekki treyjuna bara til að vera í henni einn dag. En hjúkkan er enn áttavilt í því hvaða liði hún heldur með á HM. Hún hefur löngum verið fylgjandi Hollendingum og eftir síðasta leik Argentínumanna á hún erfitt með að trúa því að þeir geri ekki góða hluti! Jæja - best að drífa sig út í góða veðrið!!!

Engin ummæli: