Viðreynsluaðferðir dauðans!
Eftir erfiðan dag en góða tónleika dreif hjúkkan sig á Ölstofuna að spjalla við aðra hjúkku. Við fundum okkur sæti á góðum stað og töldum okkur vera öruggar frá almennri ölvun og einmannaleika sem virtist hrjá flesta er inni á staðnum voru. Fljótlega fór að bera á því að verið væri að gefa okkur auga en við létum það ekki trufla okkur heldur héldum áfram að tala saman. Svo bar að fyrsti viðreynari kvöldsins hafði sig upp í að hlamma sér aðeins of nálægt hinni hjúkkunni og vildi endilega vita hvað við værum að tala um. Honum var pent bent á að það kæmi honum ekki við - honum væri velkomið að sitja þarna ef hann ætlaðist ekki til þess að við töluðum við hann. Leið svo og beið og spjallið hélt áfram og viðreynaranum ekki veitt nein athygli. Að lokum sofnar hann þannig að við vorum nú nokkuð ánægðar þar sem hann var alla vega til friðs í þessu ástandi. Kemur þá aðsvífandi viðreynari #2 sem var nú öllu fjörugri en sá fyrri og hélt að hann kæmist langt á feimninni. Var með alls konar afsakanir um það hvernig hann kynni ekki að reyna við konur og fleira - þar sem pirringurinn vegna viðreynara 1 var enn mikill fékk #2 litla samúð hjá hjúkkunum. Í því kemur aðsvífandi vinur viðreynara #2 sem virðist einmitt vera enn leiðinlegri heldur en hann. Viðreynandi #2 ætlar að gera sig stóran og nær að hella úr fullu glasi af einhverju sulli í kók og það beint á buxurnar hjá ofurhjúkkunni. Sem sagt nú er maður orðinn aðeins meira en nettpirraður og það að auki með blauta skálm á buxunum. Viðreynandi #2 og vinur hans voru hér með snarlega sendir á brott. Augnarbliki síðar birtist viðreynandi #3 og viðreynandi#1 fer að rumska. #3 er bent á að þetta sé einfaldlega ekki rétta krádið að reyna við og einn sé nú þegar búinn að hella yfir okkur drykknum sínum og annar sofna (bent á #1). Í því vaknar #1 og ælir á gólfið við hliðina á okkur!!!!!!!! #3 heldur nú að hann eigi allan sjénsins þar sem hann hvorki ældi né hellti á okkur - en hann er svo illa aumkunarverður að ekki var talin ástæða til að ræða frekar við hann. Eftir allt þetta var nú klukkan orðin margt og dauðþreyttu og út viðreyndu hjúkkurnar drifu sig heim.
18/12/2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli