21/11/2005

Allt er hjúkkum fært!!!
Hjúkkan tók sig til og fór í ljóshærða haminn sinn í dag. Hún byrjaði daginn á því að fara og kaupa parket þar sem hún sló í gegn í almennri fávisku sinni um parketlagningu (enda ætlar hún ekki að leggja parketið sjálf). Að því loknu benti sölumaðurinn henni á að fara í timbursöluna til að fá parketið afhent. Hjúkkan þakkaði pent fyrir sig og dreif sig yfir í timburdeildina. Þar var henni bent á að koma með bílinn inn svo hægt væri að setja parketið og dúkinn og alla listana í bílinn - hjúkkan hélt nú að þetta yrði ekki mikið mál enda Fabio nokkuð stór að mati hjúkkunnar. Vonleysis svipur kom á hlaðmennina sem spurðu hjúkkuna hvort hún hefði ekki getað komið á minni bíl!! en hjúkkan brosti sínu blíðasta og sagði að Skodinn væri nú bara alveg nógu stór. Þeir byrjuðu að hlaða parketinu í bílinn og alltaf seig aumingjans afturhlutinn á Fabio neðar og neðar. Þegar dúkurinn var svo líka kominn (þá átti eftir að koma fyrir golflistunum) fór hjúkkunni að lítast frekar illa á blikuna. Í nettu spaugi spurði hjúkkan hvort gólflistarnir myndu bara ekki standa út um topplúguna og var hlaðmönnunum greinilega hætt að lítast á þessa litlu píu sem greinilega var ekki mjög skörp. Loksins þegar allt dótið var komið í bílinn þá sá hjúkkan að þetta væri nú ekki að gera sig og spurði hvort hún gæti ekki bara pantað flutningabíl undir allt dótið (passaði líka að blikka alveg nokkrum sinnum). "Jú jú það er alveg hægt - en ég myndi alveg keyra bílinn svona" segir annar hlaðmannanna greinilega ekki að nenna að færa allt dótið úr Skódanum í flutningabíl. "Já ég held að það sé málið að fá flutningabíl" segir hjúkkan glöð í bragði og fer og pantar bíl. Flutingabíllinn kom fljótlega og nú voru til taks 4 karlmenn sem unnu við það að afferma Skódann og setja dótið í flutningabílinn. Tí hí hjúkkan þakkaði svo pent fyrir sig og keyrði út á eftir flutningabílnum. Nú er parketið sem sagt komið í Dofrabergið og hjúkkan þar að auki búin að panta sófann og borðstofustólana. Nú er mál að leggja sig í smá blund áður en kvöldvaktin byrjar. Umönnunarstig dagsins fá aumingjans hlaðmennirnir í Húsasmiðjunni í Grafarholti fyrir óeigingjörn störf sín í þágu hjúkkunnar :)

Engin ummæli: