Dagurinn þar sem ekkert gekk upp!
Hjúkkan er nett pirruð og vonsvikin eftir daginn í dag. Suma daga á maður greinilega að sleppa því að fara á fætur og halda bara áfram að sofa. Dagurinn byrjaði með vott af vitund um þau rauðvínsglös sem hún drakk kvöldinu áður í heimsókn sinni hjá Siggu. Heimsóknin var hrein og bein snilld þar sem hjúkkurnar hlógu, flissuðu og spáðu í hegðan karlmanna. Eftir að hafa farið niður í Rauða Kross til að ganga frá námskeiðsgögnunum frá deginum áður dreif hjúkkan sig heim í smá blund, enda full vonar að í dag myndi hún ganga frá öllum sínum íbúðarmálum og fá afhenta sína eigin íbúð. Auðvitað brugðust þau plön og hjúkkan stóð í stappi við fjölda manns, þar á meðal 2ja kvenna er vinna á "þjónustuveri" Landsbankans. Í kjölfarið er sennilega komin mynd af hjúkkunni á pílukastspjaldið í "þjónustuverinu" og hún komin á svartan lista. En þetta stapp kom nú fyrst og fremst til vegna vanhæfni starfsfólksins sem hún ræddi við. Að því loknu hélt aðeins meira stapp áfram við aðra aðila og loks breyttust auðvitað þau plön sem hjúkkan var búin að halda í vonina að myndu bjarga annars ömurlegum degi. Til að reyna að gera gott úr málinu fór hjúkkan út í búð og keypti sér rándýran Ben & Jerry´s Karamel Sutra ís. Þetta er ótrúleg blanda af vanilluís, súkkulaðiís, hreinni og mjúkri karamellu og stórum feitum súkkulaðibitum. Kaloríufjöldi í einni skeið er um 3000 og er hjúkkan komin í feitan plús á kaloríum í dag - samt borðaði hún bara um 1 / 10 af ísnum - auðvitað beint úr boxinu. Nú leið hjúkkunni örlítið betur en glitti þó í gömlu góðu feituna. Jæja maður verður að horfast í augu við feituna eftir svona ísát og það er leyfilegt. Þetta hefði verið mjög góð leið til að bjarga vondum degi - en auðvitað fékk hjúkkan illt í magann af öllum rjómanum og sykrinum sem í ísnum var þannig að þetta kom henni allt í koll. Nú eru einungis 3 klst eftir af þessum rotna degi sem getur ekki versnað og vonandi verður morgundagurinn eitthvað betri.
10/11/2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli