27/02/2005

Komin aftur á fullt skrið!
Ofurhjúkkan lætur fátt stöðva sig eftir þessa yndislegu Afríkuferð og er sem sagt aftur komin í hasarinn hér á landi. Eftir mikinn hamagang í kjölfar heimkomunnar tók við leiðbeinendanámskeið í skyndihjálp sem stóð alla síðastliðna viku. Það undarlega við þetta námskeið var að það var haldið í Keflavík, þannig að heilmikil keyrsla átti sér stað alla daga. Eins og góðum námskeiðum fylgir var drukkið óhemjumikið magn af kaffi daginn út og inn og er hjúkkan nú í meðferð vegna koffíneitrunnar.
Raunveruleikinn tekur við á morgun þar sem hjúkkan kemur aftur til vinnu á slysadeildinni eftir 3ja vikna fjarveru. Það er meira að segja spurning hvort hjúkkan þurfi ekki bara smá aðlögun eftir þennan yndislega tíma.
Óskarsverðlaunin verða afhent í kvöld og eins og svo oft áður hefur hjúkkan ekki séð neitt af þeim myndum sem eru tilnefndar þannig að þetta verður kannski ekki spurning um að vinna vökukeppnina í ár. En rokkstig dagsins fær hin síunga Dóa vinkona sem fagnar 23ja ára afmæli sínu í dag. Til hamingju með einn eitt 23ja ára afmælið snúllan mín.

Engin ummæli: